Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 426/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 426/2023

Mánudaginn 11. desember 2023

A

gegn

barnaverndarþjónustu B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. júlí 2023, kærði A lögmaður, f.h. A, fæddur  X, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð barnaverndarþjónustu B, dags. 10. júlí 2023, um að synja kæranda um aðgang að gögnum er varða dætur hans, D og E.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Þann 22. júní 2023 óskaði lögmaður kæranda eftir að fá afhent afrit af öllum gögnum vegna þeirrar ákvörðunar að skrá forsjá barna kæranda hjá barnaverndarþjónustu B. Þá væri óskað eftir afriti af áætlun um að tryggja umsjá barnanna. Auk þess væri óskað eftir öllum gögnum sem til væru hjá barnaverndarþjónustu B og varða börn kæranda allt frá því þær komu til Íslands.

Úrskurðarorð úrskurðar barnaverndarþjónustunnar, dags. 10. júlí 2023, er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„1. Barnaverndarþjónusta B samþykkir að faðir fái aðgang að þeim hluta bókunar barnaverndarþjónustu B dags. 11. maí 2023 er varðar ákvörðun um að þjónustan taki við forsjá barnanna en faðir fái ekki aðgang að öðru efni skjalsins.

2. Barnaverndarþjónusta B hafnar aðgangi að frekari gögnum málsins með þeim rökstuðningi að afhending þeirra þjóni ekki hagsmunum barnanna, geti ógnað öryggi þeirra og skaðað rannsóknarhagsmuni lögreglu.

3. Úrskurður þess skal gilda þar til ákvörðun ríkissaksóknara um saksókn í málinu liggur fyrir  og skal þá endurskoðaður ef foreldri krefst þess, en fyrr ef aðstæður krefjast þess.“

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfi, dags. 11. júlí 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 8. september 2023, var óskað eftir greinargerð barnaverndarþjónustu F ásamt gögnum málsins. Greinargerð barnaverndarþjónustunnar barst nefndinni þann 22. september 2023 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. september 2023, var hún send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að barnaverndarþjónustu B verði gert að afhenda honum öll gögn er varða dætur hans.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi kvænst […]

Árið 2022 hófst atburðarrás varðandi […].

Hinn 11. maí 2023 hafi verið tekin sú ákvörðun á meðferðarfundi barnaverndarþjónustu B að beita ákvæði 2. mgr. 32. gr. bvl. og færa forsjá barna kæranda yfir til barnaverndar. Umrædd ákvörðun hafi hvorki verið tilkynnt kæranda né lögmanni hans með neinum hætti. Lögmaður kæranda hafi komist að því að þessi ákvörðun hefði verið tekin vegna samskipta við Útlendingastofnun. Lögmaður kæranda hafi strax reynt, eftir að hafa hlotið þessa vitneskju, að fá umrædda ákvörðun barnaverndarþjónustunnar í hendurnar ásamt gögnum þar að lútandi en ekki haft erindi sem erfiði. Gagnaöflun lögmanns kæranda hafi lokið með úrskurði barnaverndarþjónustu B um takmörkun á aðgangi kæranda að gögnum málsins á grundvelli 2. mgr. 45. gr. bvl. Eina gagnið sem kærandi hafi fengið afhent hafi verið yfirstrikuð ákvörðun barnaverndarþjónustu B um beitingu 2. mgr. 32. gr. bvl.

Framangreind gagnaöflun lögmanns hafi verið miklum vandkvæðum bundin eins og gögn málsins beri með sér. Lögmaður hafi lagt fram beiðni um öll gögn er málið vörðuðu hinn 21. júní 2023 og hafi þeirri beiðni verið svarað daginn eftir af lögmanni barnaverndarþjónustu B. Þar hafi komið fram krafa barnaverndarþjónustunnar um að gagnabeiðni yrði afmörkuð frekar svo hægt væri að taka afstöðu til hennar. Sama dag sendi lögmaður í kjölfarið afmarkaða gagnabeiðni en fimm dögum síðar barst loks svar frá lögmanni barnaverndarþjónustunnar um að umboð sem fylgdi gagnabeiðni dygði ekki til að óska eftir umræddum gögnum. Uppfært umboð fyrir kæranda hafi verið sent hinn 28. júní. Engin svör hafi borist og hafi að lokum verið send ítrekun á gagnabeiðni viku síðar, eða hinn 4. júlí 2023. Aftur hafi verið send ítrekun hinn 7. júlí 2023. Í bæði skiptin hafi engin viðbrögð borist frá lögmanni barnaverndarþjónustu B eða starfsmönnum barnaverndarþjónustunnar. Vísað sé til fylgiskjals þar sem sjá megi samskiptasögu lögmanns við barnaverndarþjónustuna og lögmann hennar meðal annars. Hinn 10. júlí 2023 hafi svo loks borist svar frá barnaverndarþjónustunni um að taka ætti ákvörðun um afhendingu gagna þann sama dag.

Fyrir liggi að barnaverndarþjónusta B hafi tekið ákvörðun um að taka við forsjá dætra kæranda. Sú ákvörðun hafi ekki verið kynnt kæranda heldur hafi lögmaður hans komist að því að sú ákvörðun hafi verið tekin vegna vinnu við mál kæranda er varðar umsókn hans um alþjóðlega vernd. Ekki nóg með það að barnaverndarþjónustan telji sig geta svipt kæranda forsjá barnanna án dóms og laga heldur telji þeir sér heldur ekki skylt að veita kæranda andmælarétt né einu sinni tilkynna honum um það þegar ákvörðun hafði verið tekin. Um alvarlega misbeitingu valds og brot á grunnréttindum einstaklings sé að ræða. Kæranda sé nauðsynlegt sé að fá aðgang að öllum gögnum málsins þó ekki væri nema til þess að komast að því hvort fleiri íþyngjandi ákvarðanir hafi verið teknar sem varði hann og dætur hans án hans vitundar svo hann geti þá brugðist við með viðeigandi hætti.

Hinn kærði úrskurður brjóti alvarlega gegn rétti kæranda til aðgangs að gögnum, sbr. 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga, andmælarétti, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og rétti til réttlátrar málsmeðferðar sem tryggður sé í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1992. Þá telji kærandi að gengið sé allt of langt í þessum efnum og langt umfram það sem gæti nokkurn tímann talist nauðsynlegt m.t.t. hagsmuna barnanna, jafnvel þó hann væri jafn slæmur maður og barnaverndarþjónustan virðist halda. Þar af leiðandi sé einnig um að ræða úrskurð sem gangi gegn almennum sjónarmiðum um meðalhóf, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga og 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga.

Kærandi hafi rétt til aðgangs að gögnum sem aðili málsins, sbr. 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga og 15. gr. stjórnsýslulaga. Þennan rétt megi takmarka með vísan til 17. gr. stjórnsýslulaga. Takmörkun sé að finna í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga. Þar sé heimilað að synja um aðgang að gögnum sé það talið skaða hagsmuni barnsins. Þar sé um að ræða undantekningu á meginreglu stjórnsýslulaga og veigamikla takmörkun á rétti til aðgangs að gögnum. Þessa undantekningu beri að skýra þröngt þar sem hún feli í sér takmörkun á rétti kæranda gagnvart stjórnvöldum. Reglan um aðgang að gögnum byggi m.a. á því að almennur aðgangur að upplýsingum og umráð skjala málsins sé nauðsynlegur liður í því að geta gætt andmælaréttar. Með því að takmarka aðgang að gögnum sé verið að gera kæranda afar erfitt um vik að gæta andmælaréttar síns, líkt og hefur þegar hafi sýnt sig í þessu máli þar sem honum hafi ekki einu sinni verið tilkynnt um íþyngjandi ákvarðanir eftir að þær hafa verið teknar.

Hinn kærði úrskurður byggi á því að kærandi telst njóta aðilastöðu að þeim þætti barnaverndarmáls barnaverndarþjónustu B sem lúti að ásökunum um ofbeldi hans gagnvart dætrum sínum. Kærandi hafi ekki verið ásakaður formlega um ofbeldi gagnvart dætrum sínum né kærður til lögreglu fyrir slíkt. Forsjárdeila hans og G hafi verið mjög ljót á köflum en hvorugt þeirra hafi gerst sek um ofbeldi gagnvart börnunum. Hjá lögregluembættinu á B sé til rannsóknar sakamál á hendur kæranda vegna meints heimilisofbeldis og hótana gagnvart barnsmóður hans og fyrrverandi kærasta hennar. Taka beri fram að umrætt mál sé á rannsóknarstigi, ekki hafi verið tekin ákvörðun um saksókn og vitni hafi gefið framburð um að kærandi hafi ekki einu sinni verið á staðnum þegar meint brot hafi átt að hafa átt sér stað. Þá beri að nefna að af 3. mgr. 3. gr. barnaverndarlaga leiði að almennt séu það foreldrar barna sem teljast aðilar að barnaverndarmálum og eigi þar af leiðandi rétt á aðgangi að gögnum málsins. Í hinum kærða úrskurði segi að nefnt lagaákvæði feli í sér að forsjárlaust foreldri eigi að jafnaði ekki aðild að barnaverndarmáli barns síns og eigi ekki rétt á aðgangi að gögnum barnaverndarmálsins. Um sé að ræða alvarlega afbökun lagaákvæða sem um þetta gildi, en eðli máls samkvæmt geti margar ástæður legið að baki því að foreldri barns fari ekki með forsjá þess aðrar en ofbeldi gagnvart barni. Hið tilvitnaða lagaákvæði 3. mgr. 3. gr. hafi að geyma skýringu á hugtakinu foreldri og í því samhengi sé vísað til I. kafla barnalaga nr. 76/2003. Skírskotun barnaverndarlaga sé að öllum líkindum röng, mun líklegra sé að verið sé að vísa til I. kafla A. barnalaga þar sem fjallað sé um foreldra barns. Ljóst sé þó að skýringar ákvæðis 3. mgr. 3. gr. eigi við um foreldra barns, hvort sem þeir hafi forsjá barns eða ekki, en einnig sé „að jafnaði átt við þá sem fara með forsjá barns" eins og segir orðrétt í nefndu lagaákvæði. Aðili máls þarf því alls ekki að einskorðast eingöngu við þá sem hafa forsjá barns heldur geti þar átt í hlut foreldrar sem ekki hafi forsjá barna sinna sem mál varði. Þessi þrönga skýring lagaákvæðisins af hálfu barnaverndarþjónustu B feli í sér afbökun þýðingar lagaákvæðisins eins og áður hafi komið fram og skerði töluvert hinn tvímælalausa rétt foreldra til að fá aðgang að gögnum máls barna sinna, hvort sem þeir hafi forsjá barns eða ekki, en samkvæmt barnalögum sé sá réttur nokkuð víðtækari en lögskýring barnaverndarþjónusta B gangi út frá. Megi til dæmis líta til þess að skv. 2. mgr. 52. gr. barnalaga eigi foreldri sem ekki hefur forsjá barns rétt á munnlegum upplýsingum um barnið frá öðrum aðilum sem fari með mál þess, t.a.m. barnaverndarþjónustum. Þessi réttur foreldris sem ekki hafi forsjá barns síns taki til mála sem hann hafi ekki beina aðild að, t.d. vegna ásakana um eitthvað misjafnt.

Að öllu þessu slepptu beri einnig að árétta að kærandi og G séu með forsjá barnanna, hvort sem […]

Þar sem kærandi hafi ekki verið sakaður um ofbeldi gagnvart börnunum með neinum formlegum hætti, t.a.m. með kæru til lögreglu, þá hafi ekki verið þörf á að beita úrræði 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga. Í hinum kærða úrskurði sé vísað til þess að afhending á viðkvæmum gögnum í málinu geti skaðað hagsmuni barnanna og haft neikvæð áhrif á samband þeirra við föður sinn eða aðra. Þar sem engin brot gegn börnunum af kæranda séu til rannsóknar sé þessum rökum barnaverndarþjónustu B vísað á bug. Í hinum kærða úrskurði komi einnig fram að afstaða barnaverndarþjónustunnar sé í samræmi við mat lögreglustjórans á Í sem hafi synjað föður að svo stöddu um aðgang að rannsóknargögnum málsins. Því sé einnig vísað á bug, enda hafi lögreglustjórinn á Í veitt kæranda aðgang að nefndum rannsóknargögnum, líkt og fylgiskjöl kæru bera með sér. Sjá megi í tilvitnuðum fylgiskjölum að kærandi hafi ekki verið ásakaður um ofbeldi gegn börnunum, líkt og barnaverndarþjónustan vilji halda fram.

Eins og áður segi eigi kærandi skýlausan rétt til aðgangs að gögnum sem aðili málsins, sbr. 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga og 15. gr. stjórnsýslulaga, en takmarka megi þann rétt í undantekningartilvikum. Kæranda hafi aðeins verið veittur aðgangur að ákvörðun barnaverndar um beitingu 2. mgr. 32. gr. barnaverndarlaga og geti slík afhending tæpast talist fullnægja ákvæðum um upplýsingarétt málsaðila skv. barnaverndarlögum og stjórnsýslulögum.

Þá feli hinn kærði úrskurður einnig í sér gróft brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga og 7. mgr. 4. gr. bvl. Eins og áður hafi komið fram hafi kærandi aðeins fengið í sínar hendur eitt gagn í umræddu máli. Í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar hafi barnaverndarþjónusta B ekki leitast eftir því að mæta kröfum kæranda með öðru móti, t.d. með að veita aðgang að gögnum á starfsstöð barnaverndarþjónustu B.

Ekki verði séð að ástæða eða skilyrði séu til þess að takmarka svo freklega aðgang kæranda að gögnum málsins þegar ekki hafi verið reynt að fara vægar í sakirnar í þessum efnum. Farið hafi verið beint í þessar aðgerðir að takmarka aðgang að öllum gögnum án þess einu sinni að hugleiða að beita vægari úrræðum. Þar af leiðandi gangi hinn kærði úrskurður gegn sjónarmiðum um meðalhóf og ber að fella hann úr gildi.

Með tilliti til alls framangreinds telji kærandi að ekki hafi verið skilyrði fyrir beitingu úrræðis 2. mgr. 45. gr. bvl.

III.  Sjónarmið barnaverndarþjónustu B

Í greinargerð barnaverndarþjónustu B kemur fram að þess sé krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti hinn kærða úrskurð.

Atvik málsins í stuttu máli séu þau að […]

Fyrir liggur að móðir og börnin hafi dvalið í Kvennaathvarfinu með hléum frá X til X og hafi aðbúnaður þeirra og heilsa verið slæm. Ástæða þessarar dvalar sé […]

[…]

[…]

Rétt sé að láta þess getið að ástæða þess að kærði hafi frestað því að tilkynna kæranda um ákvörðunina hafi verið sú að barnaverndarþjónustan hafi metið það svo, eftir að hafa aflað upplýsinga frá lögreglustjóranum á Í, að rannsókn málsins gæti spillst og börnin yrðu sett í enn meiri hættu yrði kæranda gert viðvart um ákvörðunina. Þannig hafi ríkir rannsóknar- og verndarhagsmunir ráðið ákvörðun barnaverndarþjónustunnar um að fresta að tilkynna kæranda um ákvörðunina.

[…]

Hinn 21. júní 2023 hafi starfsmanni barnaverndarþjónustunni borist tölvuskeyti frá lögmanni kæranda […] Í tölvuskeytinu hafi verið óskað eftir öllum upplýsingum og gögnum sem málið varði. Lögmaður barnaverndarþjónustunnar hafi svarað tölvupóstinum þann 22. júní 2023 og skýrt út forsögu málsins og ákvörðun barnaverndarþjónustunnar. Í lok tölvuskeytisins hafi þess verið óskað að gagnabeiðnin yrði afmörkuð frekar þannig að unnt væri að taka afstöðu til beiðninnar, eftir atvikum með úrskurði.

Í tölvuskeyti lögmanns kæranda frá 22. júní 2023 hafi komið m.a. fram að Þjóðskrá Íslands hafi samþykkt að endurupptaka ákvörðunina frá 14. apríl 2023. Þá hafi verið gerðar athugasemdir við málsmeðferð hjá barnaverndarþjónustunni. Varðandi aðgang að gögnum hafi í tölvuskeytinu verið vísað til þess að fyrst og fremst væri óskað eftir afriti af þeim gögnum er vörðuðu þá ákvörðun að skrá forsjá barnanna hjá kærða svo unnt væri að kæra þá ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þá hafi verið óskað eftir afriti af áætlun um trygga umsjá barnanna. Að endingu hafi verið óskað eftir öllum gögnum sem til væru hjá barnaverndarþjónustunni og vörðuðu börnin allt frá því að þau hafi komið til íslands. Í niðurlagi bréfsins hafi komið fram að kærandi ætti rétt á öllum þessum gögnum og þurfi ekki að takmarka gagnabeiðni sína að neinu leyti.

Með tölvuskeyti lögmanns barnaverndarþjónustunnar 27. júní 2023 til lögmanns kæranda hafi verið á það bent að umboð lögmanns kæranda bæri ekki með sér að lögmaðurinn hefði umboð til hagsmunagæslu f.h. kæranda gagnvart barnaverndarþjónustunni. Í niðurlagi tölvuskeytisins hafi verið tekið fram að á meðan að fullnægjandi umboð lægi ekki fyrir yrði ekki tekin afstaða til beiðninnar um aðgang að gögnum barnaverndarmálsins. Lögmaður kæranda hafi svarað tölvuskeytinu þann 28. júní 2023. Með tölvupóstinum hafi fylgt umboð kæranda til lögmannsins, dags. 28. júní 2023, þar sem kærandi hafi veitt lögmanninum heimild m.a. til að gæta réttar hans gagnvart barnaverndaryfirvöldum. Þá hafi falist í umboðinu heimild lögmannsins til að afla gagna m.a. frá barnavernd varðandi börn hans. Með tölvuskeyti lögmanns kæranda 4. júlí 2023 hafi beiðni um aðgang að gögnum verið ítrekuð.

Með hinum kærða úrskurði hafi verið ákveðið að kærandi fengi aðgang að þeim hluta bókunar kærða, dags. 11. maí 2023, er varðaði ákvörðun um að þjónustan tæki við forsjá barnanna en kærandi fengi ekki aðgang að öðru efni skjalsins. Það var mat kærða, eftir að hafa leitað álits lögreglustjórans á Í, að annað efni skjalsins yrði ekki aðgengilegt vegna ríkra rannsóknar- og verndarhagsmuna.

Þá hafi frekari aðgangi að gögnum málsins, sem vísað sé til í niðurstöðukafla úrskurðarins, verið hafnað með vísan til þess að afhending þeirra þjónaði ekki hagsmunum barnanna og gæti skaðað rannsóknarhagsmuni lögreglu. Þá sé tekið fram að úrskurðurinn skuli gilda þar til ákvörðun ríkissaksóknara um saksókn í málinu liggur fyrir og skuli þá endurskoðaður ef foreldri krefst þess, en fyrr ef aðstæður krefjast þess.

Með úrskurði sýslumannsins í […]

Líkt og fram komi í málavaxtalýsingunni hér að framan […]. Af 3. mgr. 3. gr. barnaverndarlaga leiðir að almennt séu það forsjáraðilar barna sem teljast aðilar að barnaverndarmálum og eiga þar af leiðandi rétt á aðgangi að gögnum málsins. Framangreint felur í sér að forsjárlaust foreldri eigi að jafnaði ekki aðild að barnaverndarmáli barns síns og ekki rétt á aðgangi að gögnum barnaverndarmálsins.

Líkt og rakið sé í hinum kærða úrskurði telur kærði, þrátt fyrir framangreint, að eins og atvikum sé háttað í þessu máli sé rétt að líta svo á að kærandi teljist aðili að þeim þætti barnaverndarmálsins er lýtur að ásökunum um ofbeldi hans gagnvart dætrum sínum. Í þessu sambandi hafi verið horft til þeirra sjónarmiða sem fram koma í áliti umboðsmanns Alþingis 9. nóvember 2009 í máli nr. 5186/2007, um að ekki sé unnt að meta aðild foreldris að barnaverndarmáli einungis á grundvelli þess hvort foreldri fari með forsjá hlutaðeigandi barns. Þess í stað beri að meta hvert tilvik fyrir sig á grundvelli heildstæðs mats á hagsmunum og tengslum hins forsjárlausa foreldris við það úrlausnarefni sem til meðferðar sé Séu atvik til að mynda með þeim hætti að barnaverndarmál hefjist vegna ásakana á hendur forsjárlausu foreldri, t.d. þegar grunur sé um ofbeldi af hálfu þess gagnvart barninu, séu hagsmunir þess foreldris og tengsl við úrlausnarefnið með þeim hætti að telja verði viðkomandi aðila að þeim þætti barnaverndarmálsins. Í kjölfar heildstæðs mats á atvikum öllum hafi það sem fyrr segir verið niðurstaða barnaverndarþjónustunnar að kærandi teldist aðili að þeim þætti málsins er lútu að ásökunum um ofbeldi hans gagnvart dætrum sínum. Samkvæmt því ætti kærandi samkvæmt meginreglu 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga rétt til aðgangs að gögnum vegna þess hluta málsins.

Í hinum kærða úrskurði sé á hinn bóginn rökstutt að rétt sé að takmarka aðgang kæranda að þeim gögnum er lúta að ásökunum um ofbeldi hans gagnvart dætrum sínum í ljósi þess að málið sé sérstaklega viðkvæmt og sé til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á Í. Þessi takmörkun á aðgangi kæranda að gögnum, er varði mál dætra hans þar sem hann telst njóta aðilastöðu, sé gerður í þeim tilgangi að gæta hagsmuna barnanna. Í úrskurðinum sé í þessu sambandi vísað til heimildar í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga til að takmarka aðgang að gögnum, en þar segir að barnaverndarnefnd geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra.

Af kæru og fylgiskjölum má ráða að kærandi hafi fengið afhent tiltekin rannsóknargögn í lögreglumálinu nr. X þar sem sakarefnið sé m.a. hótanir og heimilisofbeldi kæranda gagnvart barnsmóður sinni. Kæranda hafa á hinn bóginn ekki verið afhent rannsóknargögn er lúta að ætluðu ofbeldi kæranda gagnvart börnum sínum s.s. endurrit skýrslna af börnunum í Barnahúsi og greinargerð vegna áhættumats. Rannsókn þess máls sé á viðkvæmu stigi og aðgangur að gögnum þess gæti spillt rannsóknarhagsmunum að mati barnaverndarþjónustunnar. Sú afstaða sé í samræmi við mat lögreglustjórans á Í.

Hins vegar hafi barnaverndarþjónustan ákveðið, í samráði við lögreglustjórann á Í, vegna rangra fullyrðinga í kæru um að kærandi hafi ekki verið sakaður um ofbeldi gagnvart dætrum sínum að leggja fyrir úrskurðarnefndina upplýsingaskýrslu frá lögreglu, dags. 25. júlí 2023, þar sem m.a. komi fram að börnin hafi stöðu brotaþola og lögregla meti það svo að börnin séu í hættu að því leyti að sakborningar séu líklegir til að nema þær brott. Rétt sé að geta þess að barnaverndarþjónustan hafi afmáð símanúmer móður úr upplýsingaskýrslunni til að tryggja öryggi hennar.

Á meðan málið sé ekki til lykta leitt og enn til rannsóknar sé það mat kærða að afhending á viðkvæmum gögnum í málinu geti skaðað hagsmuni barnanna og haft neikvæð áhrif á samband þeirra við kæranda eða aðra. Í því sambandi þurfi börnin að njóta vafans til þess að hagsmunir þeirra verði nægilega tryggðir. Þá sé mikilvægt að tefla ekki rannsóknarhagsmunum í tvísýnu en með því sé jafnframt verið að vernda hagsmuni barnanna. Að þessu virtu telji barnaverndarþjónustan fullnægt skilyrðum 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga fyrir því að takmarka aðgang kæranda að þeim gögnum sem vísað sé til í úrskurðinum.


 

IV.  Niðurstaða

Með hinum kærða úrskurði barnaverndarþjónustu B frá 10. júlí 2023 var tekin ákvörðun um aðgang kæranda að gögnum er varða börn hans. Fallist var á afhendingu þess hluta bókunar sem varðar ákvörðun um að barnaverndarþjónustan taki við forsjá barna kæranda en kærandi synjað um aðgang að öðru efni skjalsins. Þá var kæranda synjað um frekari aðgang að gögnum málsins, þar sem afhending þeirra þjónaði ekki hagsmunum barnanna, gæti ógnað öryggi þeirra og skaðað rannsóknarhagsmuni lögreglu.

Kæruheimild er í 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kveður á um að kæra megi synjun um aðgang að gögnum máls eða takmörkun til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.

Í hinum kærða úrskurði frá 10. júlí 2023 er m.a. vísað til þess að leiða verði af 3. mgr. 3. gr. bvl. Að almennt séu það forsjáraðilar barns sem séu aðilar að barnaverndarmáli og eigi þ.a.l. rétt á aðgangi að gögnum málsins. Það feli jafnframt í sér að forsjárlaust foreldri eigi að jafnaði ekki aðild að barnaverndarmáli barns síns og ekki rétt á aðgangi að gögnum barnaverndarmáls.

Í barnaverndarlögum er ekki mælt fyrir um hverjir eiga aðild að barnaverndarmáli fyrir utan sérákvæði í 3. mgr. 33. gr. og 55. gr. bvl. Af þessu leiðir að túlkun á aðildarhugtaki hvað varðar 45. gr. bvl. verður að byggja á þeim almennu reglum stjórnsýsluréttar sem gilda um aðild að stjórnsýslumáli. Almennt hefur verið lagt til grundvallar að sá eigi aðild sem eigi einstaklegra, verulegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekki unnt að meta aðild foreldris að barnaverndarmáli einungis á grundvelli þess hvort foreldri fari með forsjá hlutaðeigandi barns, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. 5186/2007 frá 9. nóvember 2009. Þess í stað beri að meta hvert tilvik fyrir sig á grundvelli heildstæðs mats á hagsmunum og tengslum hins forsjárlausa foreldris við það úrlausnarefni sem til meðferðar er.

Í 45. gr. barnaverndarlaga er kveðið á um upplýsingarétt og aðgang að gögnum máls. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segir að barnaverndarþjónusta geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Þjónustan getur einnig úrskurðað að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn, án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent. Í athugasemdum við það lagafrumvarp sem varð að barnaverndarlögum segir meðal annars að meginsjónarmiðið sé að stjórnsýslulögin mæli fyrir um lágmarkskröfur til málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum. Takmarkanir þær sem gert sé ráð fyrir í 2. mgr. séu aftur á móti í samræmi við það sem fram komi í 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Byggt sé á því sjónarmiði að ríkir einkahagsmunir réttlæti þau frávik sem 2. mgr. 45. gr. frumvarpsins mæli fyrir um. Í 17. gr. stjórnsýslulaga segir að þegar sérstaklega standi á sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þyki eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.

Eins og að framan greinir ber að túlka þær takmarkanir sem fram koma í 2. mgr. 45. gr. bvl. í samræmi við það sem fram kemur í 17. gr. stjórnsýslulaga. Ákvæði 17. gr. stjórnsýslulaga er byggt á því að stjórnvald meti sérstaklega í hverju tilviki þau andstæðu sjónarmið um sérhvert skjal sem til greina kemur að takmarka aðgang að. Stjórnvald getur því ekki synjað aðila um aðgang að gögnum máls á þeim grundvelli að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga eða gögn í heild sinni séu almennt til þess fallin að valda tjóni. Sérstakt mat verður ávallt að fara fram á aðstæðum öllum í því máli sem til úrlausnar er og meta verður sérstaklega sérhvert skjal sem aðgangur aðila er takmarkaður að og eftir atvikum efnisatriði hvers skjals fyrir sig.

Með hinni kærðu ákvörðun frá 10. júlí 2023 var kæranda sem aðila máls veittur aðgangur að tilteknu gagni að hluta. Þá var kæranda synjað um aðgang að frekari gögnum málsins með þeim rökstuðningi að afhending þeirra þjóni ekki hagsmunum barnanna, geti ógnað öryggi þeirra og skaðað rannsóknarhagsmuni lögreglu. Líkt og fram hefur komið þarf stjórnvald að meta sérhvert skjal sem til greina kemur að takmarka aðgang að. Stjórnvald getur því ekki synjað um aðgang að gögnum á þeirri forsendu að tiltekin gögn séu til þess fallin að valda tjóni. Í málinu liggja fyrir umrædd gögn sem kæranda var synjað um aðgang að og hefur úrskurðarnefnd farið yfir þau. Ljóst er að kæranda hefur verið synjað um aðgang að tilteknum gögnunum í heild sinni. Samkvæmt framansögðu verður að telja að barnaverndarþjónusta B hafi ekki með fullnægjandi hætti lagt mat á það hvort þau gögn sem hér um ræðir, hafi að öllu leyti fallið undir undanþáguákvæði 2. mgr. 45. gr. bvl., sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga þar sem sérstakt mat þarf að fara fram um sérhvert skjal með hliðsjón af framangreindu.

Með vísan til framangreinds er úrskurður barnaverndarþjónustu B um að takmarka aðgang kæranda að gögnum er varða son hans felldur úr gildi. Málinu er því vísað aftur til barnaverndarþjónustu B til nýrrar meðferðar.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun barnaverndarþjónustu B frá 10. júlí 2023 varðandi aðgang A, fæddur X, að skjölum og öðrum gögnum,  er felldur úr gildi. Málinu er vísað aftur til barnaverndarþjónustu B til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

_______________________________________

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum